Streituráð

10 ráð úr Streituskólanum til að minnka streituna og draga úr hættu á Kulnun

1. Sjálfsskoðun
Þinn líðan og heilsa er á þína ábyrgð. Þú verður að seta þig í forgang til að ná tökum á streitunni. Stundaðu hreyfingu, passaðu svefninn, lærðu að hvíla þig, tileinkaðu þér smá hugleiðslu og borðaðu hollt.  Hugsaðu vel um þig og lærðu að þykja vænt um þig. Kortleggðu þína núverandi stöðu í dag og taktu ákvörðun um að gera breytingar sem efla og bæta líf þitt. 
2. Lærðu að segja NEI
Að ofhlaða sig verkefnum er mjög algeng orsök fyrir streitu. Þekktu þín þolmörk og ekki fara umfram þau, tileinkaðu þér raunsæ markmið og settu þau út frá þínum forsendum óháð viðbrögðum eða áliti annara. Það er ekkert svo alvarlegt að neita öðrum og standa með sjálfum sér, þeirra viðbrögð er þeirra mál ekki þitt. 
3. Sættu þig við að geta ekki haft ALLT fullkomið
Tilhneiging til fullkomnunaráráttu, að hafa óraunhæf markmið og háleit viðmið valda mikilli innri streitu. Ef þú hefur tilhneigingu til þess að þurfa að hafa alla hluti á hreinu lærðu að sætta þig við að taka stundum meðalveginn. Færðu viðmiðin niður úr “perfect“ niður í “exellent“ og jafnvel þarf stundum að færa þau niður í “good enough“. Stundum eru aðstæður bara þannig að við getum ekki haldið öllum spilum á lofti og gert það óaðfinnanlega. 
4. Taktu þér smá pásu af og til
Einfalt og ótrúlega áhrifaríkt ráð er að taka sér smá pásu af og til yfir daginn. Draga djúpt inn andann og núllstilla hugann. Hættu að gera það sem þú ert að gera, stattu upp, teygðu þig, fáðu þér vatnsglas og smá göngutúr til að fá ferskt loft í lungun. 
5. Einbeittu þér að því sem þú hefur stjórn á
Sættu þig við og lærðu að sleppa tökunum á því sem þú getur ekki breytt eða stjórnað. Færðu fókus, athygli og orku þína að því sem er undir þinni stjórn. Hættu að velta þér upp úr vandamálinu sjálfu og farðu að veita því athygli hver lausnin sé.
6. Sættu þig við takmarkanir
Að sætta sig við takmarkanir og mörk er EKKI það sama og að gefast upp. Það snýr meira að því að viðurkenna og sætta sig við það sem er EKKI í þínum höndum. Við erum öll mannleg með mismunandi styrkleika, einbeittu þér að því að nýta þér styrkleika þína í stað þess að fókusa á veikleika þína. 
7. Leitaðu þér aðstoðar
Þegar þú upplifir þig á leiðarenda eða þú finnur yfirþyrmandi tilfinningu á stöðu þinni þá skaltu fella niður allar varnir,  þrjósku og stolt og biðja um aðstoð. Hvort sem um er að ræða bara að fá einhvern til að hlusta á þig eða fá ráð og aðstoð til að leysa vandamálið. 
8. Settu upp raunhæfar kröfur 
Reyndu að koma í veg fyrir það að upplifa yfirþyrmandi álag og pressu með því að seta raunhæf markmið og viðmið gagnvart því hversu mikið þú getur tekið að þér hverju sinni. 
9. Stundaðu virkni og áhugamál
Hreyfing er best streituráðið og losar um spennu og stresshormón í líkamanum. Ekki nota afsökun að þú hafir ekki tíma eða orku í slíkt, það er betra að gera eitthvað smá frekar en ekki neitt. Stundaðu hreyfingu á hverjum degi og reyndu að hlúa að áhugamálum þínum sem næra þig og færa þér orku og vellíðan. 
10. Sýndu þakklæti
Hvernig sýn og túlkun við setjum í aðstæður hverju sinni hefur áhrif á líðan okkar. Reyndu að temja þér þakklæti og sjá það jákvæða í hverjum aðstæðum eða verkefni. Sama hversu mikið bjátar á er alltaf eitthvað smá jákvætt sem  ferlið sem þú ert að fara í gegnum mun leiða af sér.  Ekki veita BARA hindrunum athygli þína. Með því að setja upp gleraugu sem sýna litmynd fulla af styrk og bjartsýni mun hafa betri áhrif á líðan frekar en að setja upp gleraugu sem sýna svarthvíta mynd fulla af vonleysi.